Lögregla hefur verið kölluð þrisvar sinnum í Álafosskvosina í Mosfellsbæ í morgun vegna framkvæmda sem þar standa nú yfir. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafa reiðir borgarar hringt til að kvarta undan framkvæmdunum þar og biðja um að þær verði stöðvaðar. Þá mun formleg kæra hafa verið lögð fram vegna framkvæmdanna í morgun.
Hefur lögregla farið á svæðið og rætt bæði við vegfarendur og verktaka sem þar eru að störfum. Segir lögregla fólk á staðnum vera mjög ósátt en að ekki hafi komið til átaka og ekki hafi verið gerðar neinar tilraunir til að stöðva framkvæmdirnar. Lögregla hefur heldur ekki gripið til neinna aðgerða þar sem verktakarnir segjast hafa öll tilskilin leyfi til framkvæmdanna og lögreglu hefur ekki borist beiðni frá skipulagsyfirvöldum um að stöðva þær.