Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Samskip til að greiða ekkju sjómanns, sem fórst í sjóslysi árið 1997, skaðabætur vegna missis framfæranda, en talið var að skipstjóri á flutningaskipi sem sökk hafi sýnt af sér saknæmt gáleysi með því senda ekki strax út neyðarkall þegar skipið komst í hættu. Bæturnar nema 1,8 milljónum króna auk vaxta og dráttarvaxta.
Tólf manna áhöfn var á skipinu þegar það sökk 9. mars árið 1997. Skipverjarnir fóru allir í sjóinn þegar skipinu hvolfdi og létu tveir þeirra lífið.
Í dómnum segir, að ekki liggi fyrir hver var orsök þess að skipið fékk á sig halla til bakborða og að sjór komst inn í lestar þess. Þá liggi ekki fyrir að útbúnaður skipsins hafi verið með þeim hætti að saknæmt sé þótt ýmsu hafi verið ábótavant um ástand skipsins. Þá er ekki heldur talið að orsök slyssins megi rekja til rangra ákvarðana skipstjórnenda.
Einnig var bent á að skipstjórinn hefði getað sent út neyðarkall fyrr en gert var eða strax og ljóst var að skipið rétti sig ekki af eftir að gámar af lestarlúgum fóru fyrir borð. Í dómnum segir, að fyrir liggi að skipstjóri var vakinn um 2 umrædda nótt, eftir að skipið fékk á sig halla. Fyrirskipaði skipstjóri þá að reynt yrði að dæla úr lestum skipsins. Samkvæmt gögnum málsins liggi fyrir að kl. 4 yfirgáfu vélstjórar vélarrúmið, þar sem þeir fengu ekkert við ráðið og skipið hélt áfram að hallast. Eftir það hafi ekkert getað bjargað skipinu og sé óútskýrt af hverju skipstjórinn beið svo lengi, eða til kl. 4:52 um nóttina, með að gefa út neyðarkall.
„Samkvæmt þeim tímaskýrslum sem fyrir liggja um viðbrögð björgunarþyrlunnar hefði þá verið unnt að bjarga skipshöfninni af skipinu áður en skipinu hvolfdi og áður en áhöfnin fór í sjóinn. Með þessari ákvörðun sinni að kalla ekki á hjálp þegar hennar var þörf sýndi skipstjórnandi af sér saknæmt gáleysi," segir í dómnum.
Eiginmaður konunnar, sem höfðaði skaðabótamálið, fékk hjartaáfall við að fara í sjóinn. Telur dómurinn yfirgnæfandi líkur á því að rétt viðbrögð skipstjóra á fyrri stigum hefðu leitt til þess að áhöfninni hefði verið bjargað áður en hún lenti í sjónum. Þar sem ekki liggi annað fyrir verði að telja að andlát sjómannsins sé bein afleiðing af þessari saknæmu háttsemi. Voru Samskip talin bera ábyrgð á tjóni konunnar á grundvelli húsbóndaábyrgðar.