Ökumaður sendibifreiðar slapp með skrekkinn á Borgarfjarðarbrúnni í dag þegar hann missti stjórn á ökutækinu með þeim afleiðingum að hann hafnaði næstum því úti í sjó. Að sögn lögreglu var ökumaðurinn með kerru í eftirdragi sem var með of mikinn farm. Kerran tók að rása á brúnni og missti ökumaðurinn stjórn á bifreiðinni sem lenti utan í brúarvegriðinu. Kerran valt ekki en stöðvaðist þvert á veginn.
Að sögn lögreglunnar á Borgarnesi var ekki nægilega vel gengið frá farminum og því fór sem fór.
Tilkynning barst lögreglu um kl. 14:53 og lokaði hún veginum í um hálftíma á meðan unnið var að því að tína kerrufarminn, sem var timbur, af veginum og sendibifreiðin og kerran fjarlægð.