Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað þrjá pilta, sem fæddir eru 1988 og 1989, af ákæru fyrir kynferðisbrot með því að hafa þröngvað 16 ára stúlku til samræðis með ofbeldi eða annars konar ólögmætri nauðung.
Fram kemur í dómi héraðsdóms að óumdeilt sé að stúlkan fór í heimsókn til eins piltanna í febrúar árið 2006 og að piltarnir höfðu allir samræði við stúlkuna þar. Stúlkan fór síðar á neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb kynferðisbrota.
Ákæruvaldið byggði á því að piltarnir hafi í sameiningu neytt aðstöðu- og aflsmunar til að þröngva stúlkunni til samræðis og hagnýtt sér að hún væri ein með þeim í íbúðinni og hafi ekki átt sér undankomu auðið. Piltarnir héldu því hins vegar fram að stúlkan hafi sjálfviljug tekið þátt í samförum við sérhvern þeirra og án nokkurs ofbeldis eða annarrar nauðungar af þeirra hálfu.
Í niðurstöðu fjölskipaðs héraðsdóms kemur fram, að í framburði sínum hafi stúlkan verið reikul og í raun margsaga um veigamikil sönnunaratriði málsins. Ákæruvaldið hafi ekki getað stutt fullyrðingu sína haldbærum rökum og gegn eindreginni neitun piltanna hjá lögreglu og fyrir dómi, sem sé stöðug um öll þau atriði, sem máli skipti þyki dómendum ljóst að slíkur vafi leiki á sök piltanna að óhjákvæmilegt sé að sýkna þá af ákæru.
Gagnrýni á spyril Barnahúss
Í dómnum kemur fram gagnrýni á þann sem tók skýrslu af stúlkunni í Barnahúsi. Segir þar að spyrillinn hafi haft áhrif á frásögn stúlkunnar í viðtalinu og lagt henni orð í munn. Einsætt sé, að stúlkan hafi verið leidd áfram við skýrslugjöf sína og ekki fengið ráðrúm til að skýra frá mikilvægum staðreyndum málsins í sjálfstæðri frásögn.