Aukið umferðareftirlit er hafið hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Það er gert í samvinnu við embætti ríkislögreglustjóra en næstu mánuði verður lögreglan mjög sýnileg víða á höfuðborgarsvæðinu. Eftirlitið beinist ekki síst að hraðakstri og ógætilegum framúrakstri og jafnframt mun lögreglan kanna ástand ökumanna og einnig verður fylgst með bílbeltanotkun og ýmsum öðrum öryggisbúnaði. Síðast en ekki síst sektar lögreglan grimmt þá ökumenn sem keyra enn um á nagladekkjum.
Árni Friðleifsson, varðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar, sagði í samtali við mbl.is að eftirlitið standi fram á haust og fari fram við þjóðvegi í kringum höfuðborgina og stofnbrautir á svæðinu. En ökumenn þurfa ekki eingöngu að vanda sig enn meir við aksturinn þessa dagana því lögregla höfuðborgarsvæðisins tekur afar hart á notkun nagladekkja í dag og á föstudag og kærir hiklaust alla ökumenn sem keyra um á nagladekkjum.
Samkvæmt sektarreglugerðum ber ökumönnum að greiða 5000 krónur á hvert einasta dekk og því ljóst að betra er að drífa sig á sumardekkin. Borgarbúar virðast þó hafa tekið vel við sér þetta árið og þykir vönum lögregluþjónum ekki mikið, að sekta á annan tug ökumanna á tveimur klukkustundum, líkt og gert var í dag.