Rebekka segist fyrst hafa orðið vör við stuldinn stuttu fyrir síðustu áramót. „Það var tilviljun sem réð því að maður sem ég þekki í Bretlandi rakst á þessar myndir til sölu," segir Rebekka.
Rebekka, sem er námsmaður og einstæð móðir, leitaði til íslensks lögmanns en hann taldi sig ekki geta aðstoðað hana við að sækja skaðabætur í Bretlandi. Fyrir sitt leyti sagðist talsmaður, stjórnarformaður, ritari og hugsanlegur eigandi only-dreemin ekki vilja láta hafa neitt eftir sér í Morgunblaðinu (þrátt fyrir langt samtal við blaðamann) án þess að fá að ritskoða textann. Talsmaður fyrirtækisins lét þó sömu orð falla í tölvubréfi til almenns viðskiptavinar sem birtur hefur verið opinberlega á Netinu.
„Takk fyrir að hóta okkur ekki dauða, eins og aðrir hafa gert," segir forsvarsmaðurinn í upphafsorðum tölvubréfsins. Hann segist síðan hafa keypt myndirnar löglega, á þrjú þúsund pund, af fyrirtæki sem nefnist „Wild Aspects and Panoramics LTD". Talsmaður only-dreemin.com heldur því ennfremur fram að lögfræðingar hafi ráðlagt honum að hætta öllum samskiptum við Rebekku og lögfræðing hennar. Að lokum segir í tölvubréfinu: „Þar sem Rebekka hefur opinberað þetta mál getum við núna útskýrt málavexti og að sjálfsögðu beðist afsökunar."
Að sögn Rebekku eru þessar útskýringar ófullnægjandi. „Þeir hafa frá upphafi hamrað á þessari tölu, þrjú þúsund pundum. Samt var ekki hægt að fá nein nöfn upp úr þeim til að byrja með. Eftir að fólk fór að taka eftir þessu á Netinu hef ég hins vegar loks fengið uppgefið heiti á fyrirtæki sem virðist ekki vera til. Að minnsta kosti er ekki hægt að finna það á Google."
Rebekka sagðist ekki telja það vera í sínum verkahring að finna einhvern þriðja aðila sem seldi myndirnar. „Þessir menn vita að þeir seldu myndir ólöglega fyrir háar upphæðir og þeir eiga einfaldlega að bæta mér það. Þeir geta síðan lögsótt þennan þriðja aðila, ef hann er yfir höfuð til."
Rebekka segir að sá stuðningur sem hún hefur fengið á Netinu hafi komið sér á óvart en jafnframt verið ómetanlegur.