Formlegar stjórnarmyndunarviðræður hefjast væntanlega á morgun

Ingibjörg Sólrún og Geir svara spurningum fréttamanna eftir fundinn nú …
Ingibjörg Sólrún og Geir svara spurningum fréttamanna eftir fundinn nú síðdegis. mbl.is/Ómar

Þau Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingar, hafa ákveðið að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður flokkanna tveggja á morgun fái þeir til þess umboð. Geir mun ganga á fund forseta Íslands klukkan 11 á morgun og biðjast lausnar fyrir sig og ríkisstjórn sína og fara fram á umboð til að hefja viðræður við Samfylkinguna um myndun stjórnar.

Þau Geir og Ingibjörg Sólrún hófu fund í Alþingishúsinu klukkan 16:30 og stóð fundurinn í rúman hálftíma. Geir sagði við á eftir að líklega myndu þau Ingibjörg Sólrún funda strax á morgun ásamt fleiri flokksmönnum beggja flokka. Sagði hann að þau hefðu lagt þá línu, að reyna að ná samkomulagi um myndun nýrrar stjórnar sem fyrst.

Ingibjörg Sólrún sagði að á fundinum hefðu þau Geir farið yfir stóru línurnar og niðurstaðan verið sú, að líklegt væri að samstaða myndi nást um þau mál, sem ágreiningur hefur verið um á milli flokkanna. Sagðist Ingibjörg tilbúin til að fara í viðræður við Sjálfstæðisflokk en mikilvægt væri, að ríkisstjórn, sem mynduð verði, sé mynduð um málefni og hægt sé að komast að samkomulagi um að takast á við þau stóru verkefni, sem klárlega séu framundan í íslensku samfélagi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka