Herréttur í Bolling herstöðinni í Washingtonborg í Bandaríkjunum sýknaði í gærkvöldi fyrrum varnarliðsmann á Keflavíkurflugvelli af morðákæru en maðurinn var ákærður fyrir að hafa orðið konu, sem einnig þjónaði í varnarliðinu, að bana fyrir tveimur árum. Maðurinn átti yfir höfði sér dauðadóm ef hann hefði verið fundinn sekur.
Hermaðurinn, sem heitir Calvin Eugene Hill, var grunaður um að hafa myrt Ashley Turner í þeim tilgangi að hindra að hún bæri vitni gegn honum í þjófnaðarmáli. Hafði Hill verið sakaður um að stela jafnvirði 170 þúsund króna úr hraðbanka með því að nota bankakort Turners.
Lögmenn Hills sögðu, að rannsókn málsins hefði verið ábótavant og ekki væri útilokað að unnusti Turner hefði framið ódæðið en vitað var að þeim varð sundurorða kvöldið áður en Turner fannst myrt í íbúðablokk á varnarsvæðinu.
Hill hefur játað á sig þjófnað og mun taka úr refsingu fyrir það.