Hæstiréttur dæmir eignarland í 4 þjóðlendumálum

Fjórir dómar féllu í Hæstarétti í gær um eignarréttindi á landi í svokölluðum þjóðlendumálum. Fallist var á kröfur landeigenda um að svæðin væru háð séreignarrétti þeirra. Áður hefur rétturinn fellt 9 þjóðlendudóma en þess eru ekki dæmi að Hæstiréttur hafi áður snúið dómi eða úrskurði um þjóðlendu yfir í eignarland.

Í þremur málanna var deilt um svæði sunnan Mýrdalsjökuls: Hvítmögu og Skógarfjall vestan Sólheimajökuls og Stórhöfða sunnan Mýrdalsjökuls. Í málinu er varðaði Hvítmögu lá fyrir landamerkjabréf Ytri-Sólheimajarðar þar sem tilgreint var að svæðið tilheyrði jörðinni. Hæstiréttur hefur hins vegar áður dæmt að standi aðrir þættir, svo sem gróðurfar, staðhættir og eldri heimildir gegn orðum landamerkjabréfa þá geti það í ákveðnum tilfellum ekki legið til grundvallar séreignarrétti yfir landsvæði. Þrátt fyrir að Sólheimajökull standi nú á milli jarðarinnar og Hvítmögu taldi Hæstiréttur að ekki væri ljóst að svo hefði verið við landnám. Af mörkum sveitarfélaga mætti hins vegar ráða að svæðið tilheyrði eignarlandi Ytri-Sólheima.

Aðliggjandi Hvítmögu liggur svæðið Skógfjall og líkt og þar náði landamerkjabréf jarðarinnar Eystri-Skóga yfir svæðið. Talið var að ekki væru rök gegn því að um eignarland væri að ræða enda ekki hægt að ætla að landnám hefði staðnæmst við Skógarfjall. Að svipaðri niðurstöðu var komist varðandi Stórhöfða þar sem einnig var dæmt eignarland.

Í máli íslenska ríkisins gegn Rangárþingi ytra var deilt um hvort óbyggðanefnd hefði verið heimilt að ganga lengra en íslenska ríkinu við afmörkun þjóðlendu á Rangárvallaafrétti. Skaut sveitarfélagið úrskurði óbyggðanefndar til dóms í kjölfar þess að nefndin úrskurðaði að þjóðlendan væri stærri en íslenska ríkið gerði kröfu til. Hafði nefndin talið að svæðið sem stóð umfram kröfur íslenska ríkisins lægi að óumdeildum mörkum aðliggjandi eignarlands. Hæstiréttur féllst hins vegar ekki á að óbyggðanefnd gæti gengið lengra en kröfur íslenska ríkisins, en því hélt íslenska ríkið aftur á móti fram í málinu. Dæmdi Hæstiréttur því að hluti Rangárvallaafréttar væri eignarland.

Í hnotskurn
» Áður hafa fallið 9 hæstaréttardómar í þjóðlendumálum.
» Í þremur dómanna sem féllu í gær var fjallað um svæði sem liggja sunnan Mýrdalsjökuls og sumar eldri heimildir bentu til takmarkaðra nytja á.
» Hæstiréttur leit einkum til þess að fá rök væru til að landnám hefði verið takmarkað líkt og óbyggðanefnd hafði talið.
» Í einu málanna afmarkaði óbyggðanefnd þjóðlendu yfir stærra svæði en íslenska ríkið hafði gert.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert