Hilmar Konráðsson, forstjóri verktakafyrirtækisins Magna, segir dapurlegt að óánægja fólks komi fram í skemmdarverkum á eigum fyrirtækisins og segir að menn hjá fyrirtækinu hafi engan áhuga á því að eiga í stríði við ibúa Álafosskvosarinnar. Hilmar segir þær framkvæmdir sem nú standi yfir í kvosinni tengist ekki sjálfri tengibrautinni heldur séu nauðsynlegar svo hægt sé að hefja uppbyggingu á nýju hverfi.
Varmársamtökin sendu í dag frá sér tilkynningu, þar sem sagði að verktakinn hafi í morgun byrjað að leggja veg fyrir aftan gamla verksmiðjuhúsið meðfram Varmá í átt að Álafossi. Segja samtökin að virðingarleysi gagnvart íbúum og umhverfi virðist sér engin takmörk eiga. Engin tilkynning hafi borist frá bæjaryfirvöldum um þessar fyrirætlanir til íbúa. Háværar vinnuvélar hljómi nú á frídegi í eyrum langþreyttra íbúa þessa svæðis.
Hilmar sagði, að þótt hætt verði við tengibrautina umdeildu þá breyti það ekki því að leggja verði holræsi, rafmagn, vatn og annað og engin önnur leið sé fær en að leggja lagnirnar um kvosina. Þá segir hann að m.a. sé verið að endurnýja skólplagnir í Álafosskvosinni.
Hilmar segir ekki rétt, að verið sé að leggja veg en óumflýjanlegt sé að leggja slóða við framkvæmdirnar til að koma efni að og frá. Venjan sé svo að verksummerki séu fjarlægð með því að taka efni og fylla yfir með mold og sá svo grasi.
Um skemmdarverkin sem unnin voru á vinnuvélum fyrirtækisins aðfaranótt miðvikudag segir Hilmar að íbúar í Brekkulandi hafi séð til mannaferða um fjögur umræddan morgun. Hefur fyrirtækið heitið 200.000 krónum þeim sem veitt getur upplýsingar um þá sem frömdu skemmdarverkin.