Kambur á Flateyri að selja kvóta og skip

Smábátar í höfninni á Flateyri.
Smábátar í höfninni á Flateyri. mbl.is/Ómar
Eftir Agnesi Bragadóttur agnes@mbl.is
Kambur hf. á Flateyri er nú í samningaviðræðum um að selja frá sér umtalsverðan hluta fiskveiðiheimilda sinna og einhver fiskveiðiskip en Kambur gerir út tvo stóra báta og þrjá minni.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er talið að Brim hf. í eigu Guðmundar Kristjánssonar á Rifi og fleiri aðila sé að kaupa hluta kvóta Kambs en Kambur hefur yfir 3.000 þorskígildistonnum að ráða sem nálgast það að vera um sjö milljarða króna virði. Heimildir Morgunblaðsins herma að Hinrik Kristjánsson, útgerðarmaður og aðaleigandi Kambs, muni kynna sjómönnum, fiskvinnslufólki og öðru starfsfólki Kambs hver staða fyrirtækisins er á fundi síðdegis á morgun. Hinrik vildi ekkert um málið segja þegar Morgunblaðið hafði samband við hann í gær.

Um 120 manns starfa hjá Kambi, liðlega 50 sjómenn og hinir í landi. Ekki liggur fyrir hversu margir munu missa atvinnu við þessi viðskipti Kambs en þó er ljóst að þetta er verulegt reiðarslag fyrir bæjarfélagið því Kambur er aðalvinnustaður plássins. Kambur hefur, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins, leigt mikið af veiðiheimildum en nú er engar veiðiheimildir að fá lengur til leigu. Gengi krónunnar hefur styrkst um 20% frá áramótum sem forráðamenn fyrirtækisins munu telja að hafi gert þeim afar erfitt um vik með óbreyttan rekstur auk þess sem hátt vaxtastig hafi einnig gert þeim lífið leitt.

Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður býr á Flateyri. "Ég hef ekki fengið þetta endanlega staðfest en þetta eru náttúrlega mjög alvarleg tíðindi. Ég hef lengi óttast það að þetta vaxtastig og þessi vaxtastefna Seðlabankans mundi leiða til þess að öll útgerð og fiskvinnsla á strandlengjunni umhverfis landið legðist af," sagði Einar Oddur í samtalið við Morgunblaðið í gærkvöld. Hann kvaðst árum saman hafa varað við þessu en hann vissi ekki hvort menn hefðu ekki tekið eftir því sem hann var að segja eða einfaldlega ekki trúað honum. "Gengi krónunnar er nú komið í þá stöðu að útflutningsframleiðslan getur ekki haldið áfram. Það sér það hvert mannsbarn í hendi sér. Hér eru því skelfilega alvarlegir hlutir á ferð."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert