Í annað sinn á skömmum tíma barst stórlúða á land á Djúpavogi á línuveiðara en fyrir skemmstu kom báturinn Anna GK með 146 kg lúðu að landi. Að þessu sinni var það báturinn Arnar KE 260, sem er um 15 tonna plastbátur, sem kom með aðra og ennþá stærri lúðu að landi í Djúpavogshöfn eftir hálftíma slag við að innbyrða ferlíkið.
Lúða þessi vó hvorki meira né minna en 181 kg og er að sögn ein allra stærsta ef ekki sú stærsta sem dregin hefur verið á hefðbundna fiskilínu á Íslandsmiðum. Í bókinni Íslenskir fiskar (1992) kemur fram að árið 1935 var veidd 266 kílóa lúða við Ísland og hún var talin sú stærsta sem hér hefur komið á land.
Skipstjóri á Arnari er Karl Guðmundsson frá Djúpavogi og með honum í róðri var sonur hans, Guðmundur Már. Sá síðarnefndi stendur hér við hlið stórlúðunnar. Þeir feðgar fengu aðstoð hjá skipverja á öðrum báti til að ná lúðunni um borð.