„Þessari skýrslutöku var því aldrei ætlað að vera gagn í dómsmáli," segir Bragi. Aðspurður hví skýrslan hafi orðið gagn í málinu, segist Bragi telja að lögreglan hafi óskað eftir því að leggja skýrsluna fram sem málsgagn. „En dómstóllinn á við sitt mat að leggja til grundvallar framburðarskýrslu barnsins fyrir dómi. Ég hefði talið eðlilegt að dómstóllinn byggði sína álitsgerð á því sem stúlkan segir fyrir dómi en ekki einhverju sem kann að koma fram í öðru viðtali sem þjónar öðrum tilgangi."
Þegar Bragi er spurður hvort það hafi verið með vitund og samþykki Barnahúss að umrædd skýrsla hafi orðið að gagni í dómsmáli, segist Bragi ekki kannast við að það hafi verið borið undir Barnahús. „Þetta er skýrsla sem Barnahús lætur barnaverndarnefnd í té vegna þess hlutverks sem nefndin hefur samkvæmt barnaverndarlögum," segir hann.
Aðspurður hvort lögregla eða ákæruvald hafi heimild til að seilast í könnunarviðtöl Barnahúss og nota þau eins og þeim þóknast segist Bragi „í rauninni ekki" telja að svo sé. „En það hefur verið regla hjá okkur að kappkosta að eiga gott samstarf við lögregluna við rannsókn mála þannig að það hefur aldrei verið fyrirstaða af okkar hálfu að veita þeim aðgang að þessum könnunarviðtölum ef þurfa þykir."