Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt karlmann í 18 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn 10 ára gamalli stúlku. Maðurinn, sem játaði brot sitt, var einnig dæmdur til að greiða stúlkunni 1 milljón króna í bætur.
Fram kemur í dómnum, að faðir stúlkunnar hafi leigt hjá manninum en þeir voru tengdir fjölskylduböndum. Því hafi stúlkan stundum verið á heimili mannsins
Þá kemur fram í dómnum, að stúlkan sé ofvirk og með athyglisbrest og fengið óeðlileg köst sem hafi versnað eftir þessa atburði. Var stúlkan m.a. lögð inn á barna- og unglingadeild.
Í niðurstöðu dómsins kemur fram að tekið var tillit til þess að maðurinn hafi ekki brotið af sér áður og viðurkenndi brot sitt skýlaust. Þá hafi hann leitað sér aðstoðar í kjölfar þessara atburða. Hins vegar sé einnig litið til þess að maðurinn hafi brotið alvarlega gegn stúlkunni þar sem hún átti að vera örugg á heimili föður síns. Þá verði að telja að manninum hafi hlotið að vera ljóst að stúlkan átti við ýmsa erfiðleika að stríða og sé fram komið í málinu að þessi atvik hafa haft mjög mikil og alvarleg áhrif á hana.