Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt þrjá Litháa til fangelsisrefsingar fyrir hylmingu og þjófnaði. Var einn dæmdur í 7 mánaða fangelsi, þar af fimm skilorðsbundna, en hinir tveir í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Þá var sá sem þyngsta dóminn hlaut dæmdur til að greiða fyrirtæki 329 þúsund krónur í bætur.
Tveir af mönnunum voru fundnir sekir um að hafa stolið þremur úrum af gerðinni Raymond Weil úr verslun í Kringlunni og reynt að selja þau í annarri verslun á Skólavörðustíg.
Þá voru tveir fundnir sekir um að hafa reynt að stela fartölvum úr verslunum í Hafnarfirði og Reykjavík og einn var sakfelldur fyrir að vera með ólögleg bitvopn á almannafæri.
Fram kemur í dómnum að tveir af mönnunum eru á þrítugsaldri og einn er 19 ára. Þeir voru allir nýlega komnir til landsins þegar þeir voru handteknir fyrr á þessu ári.