Össur Skarphéðinsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, segir stjórnarmyndunarviðræður forsvarsmanna Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins nú snúast um það með hvaða hætti hægt sé að sameina það helsta og besta úr stefnu þessara tveggja flokka í þessum kosningum og hvernig hægt sé að greiða úr þeim vandamálum sem upp komi við samræmingu þeirra.
„Það sem við erum að gera núna felst m.a. í ákveðinni textavinnu og þó henni sé ekki lokið lít ég ekki svo á að það ríki nein óvissa um þetta,” sagði hann í samtali við blaðamann mbl.is nú í kvöld. „Það er mjög góður andi í þessum viðræðum og ég met það svo, sem nokkuð sjóaður stjórnmálamáður að okkur miði hratt og vel áleiðis enda er greinilegt að það er fullur vilji til að greiða úr þeim vandamálum sem upp koma,” sagði hann.
Össur sagðist ekki hafa heyrt neinar umræður um skiptingu ráðuneyta eða nein nöfn nefnd í slíku samhengi. Þá sagðist hann ekki telja skiptingu ráðuneyta endilega þurfa að tengjast málefnasamningi ríkisstjórnar með beinum hætti enda hljóti samstarfsflokkar að líta svo á að þeir séu bundnir af stefnu þeirrar stjórnar, sem þeir eigi aðild að, burtséð frá því hver sé í forsvari fyrir hvert ráðuneyti.