Telur að ný „viðreisnarstjórn" verði fjármálamörkuðum hagfelld

Greining Glitnis segir að verði af myndun nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, eins og útlit sé nú fyrir, muni sú stjórn að öllum líkindum reynast fjármálamörkuðum nokkuð hagfelld. Trúlega muni hin nýja stjórn halda áfram þeirri þróun til markaðs- og alþjóðavæðingar sem einkennt hafi íslenskt efnahagslíf frá upphafi tíunda áratugar síðustu aldar.

„Ólíklegt er að skattar á fyrirtæki eða fjármagnstekjur verði hækkaðir, eða þrengt að atvinnulífinu með stífara regluverki. Báðir flokkar hafa auk þess haft uppi hugmyndir um aukinn einkarekstur og einkavæðingu. Enn fremur verður fróðlegt að fylgjast með hvort ráðist verður í umfangsmiklar breytingar á landbúnaðarkerfinu en innan beggja flokka er áhugi á slíkum breytingum. Einnig eru líkur til að frekari breytingar verði gerðar á fyrirkomulagi Íbúðalánasjóðs, þar sem Framsóknarmenn hafa ráðið miklu undanfarin 12 ár," segir í Morgunkorni Glitnis.

Þar segir að ýmislegt skilji þó í milli flokkanna tveggja. Megi þar nefna Evrópumál en Samfylkingin hafi oftsinnis lýst áhuga sínum á að hefja viðræður við Evrópusambandið um fulla aðild og upptöku evru. Sjálfstæðisflokkur hafi hins vegar verið andvígur slíkum hugmyndum, þótt sú andstaða hafi eitthvað dvínað á undanförnum árum. Raunar megi telja ólíklegt að stór skref yrðu stigi í átt til Evrópusambandsaðildar á næstu misserum og því kunni flokkarnir að ná sátt um að flýta sér hægt í þeim efnum.

Einnig sé viðhorf flokkanna tveggja til áframhaldandi uppbyggingar í áliðnaði töluvert ólíkt, og því nokkur óvissa um framvindu í þeim efnum á næstu árum. Í heild ætti þó myndun hinnar nýju stjórnar að hafa róandi áhrif á markaði, þar sem einhverjir markaðsaðilar hafi verið smeykir um að fram gæti komið stjórnarmynstur sem reynast myndi fjármálamörkuðum óþægur ljár í þúfu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert