„Lykilorðið í nýju aðalskipulagsvinnunni er gæði. Í því felst margt sem telst til lífsgæða og er til dæmis verið að tala um í því samhengi hvað háhýsi gera fyrir borgarlandslagið og lífið milli þessara húsa.“ Ólöf segir að til dæmis þurfi að svara spurningum á borð við: Hvaða áhrif hafa háhýsi á nærumhverfi? Og: Hvernig búum við til góða borg miðað við okkar breiddargráðu?
„Þetta er stórt málefni og við finnum fyrir því að við þurfum að hafa háhýsastefnu. Þetta er eitthvað sem ekki bara Reykjavík vantar heldur eru margar borgir að glíma við þetta núna og gera sér grein fyrir að þessi stefna þurfi að vera fyrir hendi. Aðalskipulagshópurinn hefur verið að kynna sér hvað aðrar borgir á Norðurlöndum eru að gera. Mikil umræða hefur verið um háhýsi í Kaupmannahöfn, sem er að móta sér stefnu. Osló er með slíka stefnu en Helsinki og Stokkhólmur eru ekki með háhýsastefnu en búa hinsvegar yfir þeirri hefð að byggja ekki hátt í miðborgum.“
Ekki er til regla hérlendis um hversu hátt hús þurfi að vera til að teljast háhýsi. „Við höfum verið að horfa til Norðurlandanna þar sem hefðin er svona tíu hæðir. Talað hefur verið hér um átta hæða blokkir sem háhýsi svona manna á milli en við höfum enga formlega skilgreiningu,“ segir Ólöf og bætir við að í yfirstandandi stefnumótunarvinnu verði áreiðanlega skilgreint hvað teljist háhýsi í Reykjavík.
Háhýsi virðast vera í tísku sem stendur. „Við verðum vissulega vör við mikinn áhuga hjá framkvæmdaraðilum fyrir háum byggingum og skoðum hvert tilfelli gaumgæfilega.“
Nánar er fjallað um þetta í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.