„Forvarnir eru besta leiðin!" er yfirskrift ráðstefnu um forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum á Íslandi sem fram fer dagana 24. og 25. maí nk. í húsakynnum Kennaraháskóla Íslands. Að ráðstefnunni standa Barnaverndarstofa, Blátt áfram, Félag heyrnarlausra, Háskólinn í Reykjavík, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Þroskahjálp, Stígamót og Neyðarlínan 112.
Á ráðstefnunni munu fjórir sérfræðingar frá Bandaríkjunum segja frá því nýjasta í rannsóknum, forvörnum og úrræðum. Þannig mun David Burton kynna rannsóknir á tíðni og úrræðum, Robert E. Longo fjallar um nýjar leiðir í úrræðum fyrir unga gerendur, Shirley Paceley fjallar um kynferðislegt ofbeldi gagnvart greindarskertum og fötluðum og John C. Patterson leiðbeinir um forvarnir og áhættumat á vinnustöðum.
Auk þeirra flytja erindi þau Valdís Ívarsdóttir sem kynna mun rannsóknir Félags heyrnarlausra á tíðni kynferðisofbeldis meðal heyrnarlausra og heyrandi barna og Svava Björnsdóttir, frá samtökunum Blátt áfram, mun fjalla um fræðslu og þjálfun starfsmanna og sjálfboðaliða sem vinna með börnum og unglingum í því skyni að fyrirbyggja, þekkja og bregðast við kynferðislegri misnotkun barna á ábyrgan og réttan hátt.