Leikarinn og uppistandarinn Snorri Hergill Kristjánsson keppir til úrslita í kvöld í einni stærstu uppistandskeppni á Bretlandseyjum þar sem leitað er að bestu nýju uppistöndurunum.
650 manns hófu keppni og nú standa tólf eftir. Snorri segir það mikið afrek að komast í úrslit enda sé London höfuðborg uppistandsins. Snorri hefur búið í London í tvö ár. Hann hefur lokið leiklistarnámi hjá LAMDA (London Academy of Music and Dramatic Arts), og reynt fyrir sér á leiklistarsviðinu. Hann segir það hafa tekið sig nokkurn tíma að ná þeim tökum á enskri menningu sem nauðsynleg séu til að geta gert grín að henni.