Patreksfjarðarkirkja 100 ára

Patreksfjarðarkirkja
Patreksfjarðarkirkja

Í dag, sunnudaginn 20. maí heldur Patreksfjarðarkirkja upp á 100 ára vígsluafmæli en hún var vígð við hátíðlega athöfn á hvítasunnudag 19. maí 1907 af Sr. Bjarna Símonarsyni sem þá var prófastur Barðstrendinga. Kirkjan hafði þá verið rúm 3 ár í smíðum og þótti mikið þrekvirki hins unga safnaðar er hafði verið stofnaður með lögum frá Alþingi árið 1903.

Það var Sigurður Magnússon héraðslæknir og þáverandi sóknarnefndarformaður sem teiknaði kirkjuna en Markús Snæbjörnsson kaupmaður á Geirseyri gaf land undir hana og kirkjugarð líka sem vígður var fyrr, eða árið 1904.

Það var steinsmiðurinn Guðmundur Einarsson sem hafði yfirumsjón með allri steinsmíði við kirkjuna en þess má geta að Patreksfjarðarkirkja er ein af þeim fyrstu hér á landi og jafnvel í heiminum sem eru steinsteyptar.

Undanfarin tvö ár hefur verið unnið að gagngerum endurbótum á kirkjunni og hún færð í nær upprunalegt horf. Yfirumsjón með þeim framkvæmdum hefur Jón Nordsteien arkitekt haft.

Hátíðin hefst með hátíðarmessu kl. 14:00 þar sem vígslubiskupinn í Skálholti prédikar og fyrrum prestar safnaðarins þjóna við athöfnina ásamt sóknarpresti. Að aflokinni hátíðarmessunni er gestum og söfnuði boðið til kaffisamsætis í Félagsheimili Patreksfjarðar. Núverandi sóknarprestur í Patreksfjarðarprestakalli er Sr. Leifur Ragnar Jónsson og sóknarnefndarformaður er Gestur Rafnsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert