Varnarsvæðið opið almenningi í dag

Frá varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
Frá varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Í dag, sunnudaginn, 20. maí frá kl. 14-17 munu Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar og Reykjanesbær standa fyrir opnum degi á svæði gömlu herstöðvarinnar. Almenningi mun þá í fyrsta sinn gefast kostur á að heimsækja varnarsvæðið en þessir aðilar vinna nú að uppbyggingu háskólasamfélags á Keflavíkurflugvelli.

Gestum gefst kostur á að skoða íbúðir, bæði fyrir einstaklinga og fjölskyldufólk og aðra aðstöðu, svo sem íþróttahús, sundlaug, innileikvelli og skólahúsnæði. Gestum verða afhent kort af svæðinu í hliðinu en gjaldfrjáls strætisvagn mun einnig aka um það með stuttu millibili.

Í nýstandsettu skólahúsnæði Keilis verða kynningar kl. 14:00 og 16:00 á starfsemi Keilis, frumgreinadeildar og væntanlegrar flugakademíu. Þar verður tekið við umsóknum í frumgreinadeild og umsóknum um leiguíbúðir en einnig verða veittar nánari upplýsingar um þá þjónustu sem Reykjanesbær hefur upp á að bjóða, svo sem félagsþjónustu, grunn- og leikskóla, menningarlíf og tómstundir.

Keilir mun hafa milligöngu um útleigu á íbúðum fyrir nemendur við háskóla á höfuðborgarsvæðinu frá ágúst næstkomandi. Um er að ræða stórar og glæsilegar íbúðir sem boðnar verða á mjög hagstæðu verði. Strætisvagnar munu tengja svæðið við háskólana í Reykjavík án endurgjalds.

Meðal hluthafa í Keili eru Háskóli Íslands og lykilfyrirtæki í útrás íslensks atvinnulífs erlendis, ásamt fyrirtækjum og félögum á Suðurnesjum.

Upplýsingar um námsframboð og leiguverð er að finna á www.keilir.net eða í síma 578-4000

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert