Dæmdur í 3 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn dóttur sinni

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt karlmann í 3 ára fangelsi fyrir að hafa tvívegis haft samræði við þroskahefta dóttur sína í janúar á þessu ári. Þá var maðurinn dæmdur til að greiða dóttur sinni 800 þúsund krónur í bætur. Maðurinn játaði sök. Hann var árið 1991 dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir brot gegn sömu stúlkunni fyrir að hafa margsinnis haft við hana samræði.

Fram kemur í dómnum, að konan hafi flutt að heiman tvítug og búi nú með kærasta sínum og litið sé eftir þeim þar. Þá vinni hún á vernduðum vinnustað. Konan sagði fyrir dómi, að sér hafi liðið mjög illa eftir þessi atvik. Hún hafi verið með sár inni í sér, döpur og grátið og átt erfitt með svefn og þurft töflu til að sofa. Henni líði þó ekki illa eins og er og hún hafi ekkert verið frá vinnu vegna þessa.

Í niðurstöðu dómsins segir, að við ákvörðun refsingar sé litið til þess að maðurinn hafi viðurkennt þá háttsemi sem honum sé gefin að sök. Hins vegar verði einnig litið til þess að stúlkan sé verulega greindarskert. Ákærði sé faðir hennar og megi því vera ástand hennar ljóst og líklegt að hann þekki tilhneigingu hennar til að gera fólki til hæfis. Hafi maðurinn með þessari háttsemi ítrekað brotið alvarlega gegn þessari dóttur sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert