Hátt í 200 manns kepptu í bridge á Ísafirði

Bogi Sigurbjörnsson og Arnar Geir Hinriksson við spilaborðið á Ísafirði.
Bogi Sigurbjörnsson og Arnar Geir Hinriksson við spilaborðið á Ísafirði. mynd/bb.is

Kjördæmamót Bridgesambands Íslands var haldið í Menntaskólanum á Ísafirði um helgina. Um 170 manns spiluðu á mótinu, en á því keppa gömlu kjördæmin átta, auk liðs Færeyinga og liði Bridgesambandsins. Það var lið Reykjavíkur sem fór með sigur af hólmi á mótinu.

„Það voru allir mjög ánægðir með mótið,“ segir Sigurður Ólafsson, í Bridgeklúbbi Ísafjarðar, „aðkomufólkið kom bæði fljúgandi og með rútu, og gisti í Súðavík og á Ísafirði, ýmist á hóteli, gistiheimilum eða í heimahúsum. Aðbúnaðurinn í menntaskólanum var mjög góður, og til fyrirmyndar, keppt var bæði á sal skólans og í kennslustofum. Systurnar Margét, Elín og Hugljúf Ólafsdætur sáu um að elda dýrindis veislumat ofan í fólkið og allir voru því vel mettir og ánægðir, burtséð frá gengi á mótinu. Á mótum sem þessum ræður mikil gleði.“

Það var Bridgeklúbbur Ísafjarðar sem hélt utan um skipulagningu mótsins, en kjördæmamótin eru haldin á hverju ári. Síðast var kjördæmamót haldið á Vestfjörðum fyrir átta árum, þá í Reykjanesi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert