Fundi forustumanna Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er lokið í Ráðherrabústaðnum. Sögðu þau Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokks, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, eftir fundinn, að hlé verði gert á viðræðum milli flokkanna og vildu þau ekki segja hvenær reiknað væri með fundir hæfust á ný. Geir sagðist telja góðar líkur á að niðurstaða fáist í viðræðurnar. Þau sögðu aðspurð, að hléið væri ekki gert vegna einhverra sérstakra ágreiningsmála heldur hentaði það þeim að gera þetta svona.
Ingibjörg Sólrún sagði, að þau væru ákveðin í að lenda þessu máli en þau þyrftu ekki að flýta sér um of. Geir sagði aðspurður, að ekki væri komið að því að kalla saman flokksstjórnir eða þingflokka. Þegar þau voru spurð hvort byrjað væri að skipta ráðuneytum milli flokkanna sagði Geir að öll mál væru afgreidd í einum pakka.
Fundinn í Ráðherrabústaðnum sátu, auk Geirs og Ingibjargar Sólrúnar, þau Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokks og Össur Skarphéðinsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar.
Þingflokkur Samfylkingar mun hittast í kvöld til að kveðja þá þingmenn, sem hverfa nú af þingi.