Starfsemi Norðanflugs ehf., félags um fraktflug frá Akureyri til meginlands Evrópu, er formlega hafin. Segir félagið, að fyrsta fraktflugið á vegum félagsins verði þann 3. júní en þá verði flogið með vörur frá Akureyri til Oostende í Belgíu.
Norðanflug mun fljúga þrisvar í viku til að byrja með, á sunnudögum, þriðjudögum og fimmtudögum. Segir félagið að Oostende í Belgíu hafi orðið fyrir valinu vegna góðrar legu með tilliti til dreifingar á fiski innan Evrópu. Þaðan sé einungis um tveggja stunda akstur til Boulogne sur Mer í Frakklandi, sem sé áfangastaður stærsta hlutar þeirra fersku fiskflaka sem fara með flugi frá Íslandi.
Með þessu styttist flugningstími fyrir ferskan fisk, sem unnin er á Norðausturlandi, um heilan dag þannig að hann kemur enn ferskari en áður til viðskiptavina á meginlandi Evrópu. Norðanflug verður með aðsetur í Oddeyrarskála á Akureyri. Nýráðinn framkvæmdastjóri félagsins er Unndór Jónsson en hann starfaði áður á flugrekstrarsviði flugfélagsins Atlanta. Stofnendur Norðanflugs eru Samherji hf., Hf. Eimskipafélag Íslands og SAGA Capital Fjárfestingarbanki.