Auglýsingastofan Himinn og haf segir, að birtingu á auglýsingum með Lalla Johns er lokið. Öryrkjabandalagið hefur kært auglýsingaherferðina til siðanefndar Sambands íslenskra auglýsingastofa og telur hana brjóta gegn siðareglum um auglýsingar.
Himinn og haf segir, að auglýsingin hafi verið birt að vandlega ígrunduðu máli og kynnt fyrir aðstandendum Lalla og ríkislögreglustjóra sem tóku vel í málið. Lalli hafi sjálfur verið allsgáður við gerð þeirra, áhugasamur um þátttöku og vel hafi verið komið fram við hann á allan hátt.
„Alvarleg innbrot eru algengt vandamál á Íslandi og óskemmtileg reynsla öllum þeim sem fyrir þeim verða. Sú óvenjulega leið að birta viðtal við og andlitsmyndir af þekktum innbrotsþjófi í öryggis- og forvarnarskyni hefur þó farið fyrir brjóstið á sumum og þykir stofunni það verulega leitt. Ennfremur viljum við þakka öll þau jákvæðu viðbrögð sem herferðin hefur fengið.
Það var mat okkar að Lalli væri eini Íslendingurinn sem gæti sinnt þessu verkefni þar sem hann er löngu þjóðkunnur af heimildamynd um hann og hefur unnið sér sérkennilegan sess hjá þjóðinni þrátt fyrir ógæfusaman feril. Hann vinnur nú markvisst að því að leita sér hjálpar og leit á þátttöku sína í auglýsingaherferðinni sem einn þátt í því – að koma fram í forvarnarskyni og tala af reynslu," segir í tilkynningu frá stofunni.