Bóndinn í Lækjartúni fann stærðar ísbolta á túni eftir haglél

Risastórt hagl eða ísúrgangur úr loftfari sem fallið hefur til jarðar? Sveinn Tyrfingsson í Lækjartúni í Ásahreppi í Rangárvallasýslu rak upp stór augu þegar hann rakst á þennan stóra ísklump innan um lítil höglin sem fallið höfðu á túnið við bæinn í gærmorgun. Haglél hafði þá gengið yfir og var Sveinn að gá til kinda þegar hann fann hnefastóran ísboltann í grasinu.

Jórunn Eggertsdóttir í Lækjartúni tók meðfylgjandi mynd af ískögglinum og sendi Morgunblaðinu. Hún segir að þótt komið hafi fyrir að fréttir bærust af hagli á stærð við golfkúlu sé þetta fyrirbrigði miklum mun stærra og kunni þau engar skýringar á því. Það gekk á með snjókomu sunnanlands í gærdag. „Sveinn fann bara þennan eina köggul. Þarna voru bara venjuleg högl eftir snjókomuna og við vitum ekki hvort þetta er hagl eða hvernig köggullinn hefur getað myndast þarna. Hann lítur þó út fyrir að vera hagl, þó erfitt sé að trúa því," segir hún.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að miðað við lýsingu á stærð ísköggulsins og að ekki hafi fundist fleiri af svipaðri stærð sé nær útilokað að um hagl sé að ræða. Miklu líklegra sé að þetta sé klaki sem fallið hafi úr flugvél eða einhverju öðru loftfari. „Það kemur stundum fyrir," segir hann.

Flugvirki hjá flugþjónustunni IGS á Keflavíkurflugvelli sem rætt var við um þessa ráðgátu í gær var á annarri skoðun og sagði mjög ólíklegt að ísinn hefði getað fallið úr flugvél. Þó að stór högl séu afar sjaldgæf hér á landi séu þau þekkt víða, m.a. í Bandaríkjunum. Ef svo ólíklega vildi til að ísinn hefði komið úr flugvél ætti vatnið að vera lítið eitt bláleitt.

Stærsta hagl sem mælst hefur í heiminum féll í Bandaríkjunum 1970 og var 14,2 sm í þvermál og 45 sm að ummáli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert