Komið hefur upp sú hugmynd að stofna almenningshlutafélag sem keypti aflaheimildir til Vestfjarða til að bregðast við ástandinu sem komið er upp á Flateyri við yfirvofandi lokun fiskvinnslunnar Kambs.
„Við vitum náttúrulega ekki ennþá hvernig spilast út með sölu aflaheimilda,“ segir Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, þegar hann er spurður hvernig brugðist verður við ástandinu á Flateyri, „en meðal hugmyndanna sem komið hafa upp er að stofnað verði almenningshlutafélag, í eigu margra aðila á norðanverðum Vestfjörðum, sem stæði fyrir kaupum á aflaheimildum til svæðisins. Þá verður skipaður sérstakur teymishópur til að vernda hagsmuni starfsfólksins missi það vinnuna.“
Í hópnum er áætlað að verði fulltrúar frá sveitarfélögum svæðisins, skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar, Íbúasamtökum Önundarfjarðar, Rauða Kross deild Önundarfjarðar, svæðisvinnumiðlun, fjölmenningarsetri, Verkalýðsfélagi Vestfirðinga, Kambi, Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða.
Lagt hefur verið til að ráðinn verði sérstakur verkefnisstjóri sem vinnur með hópnum, og verið er að leita að manneskju í það. Halldór segir að næstu daga verði vel fylgst með þróun málsins. „Atburðarrásin hefur verið afar hröð en við vitum ekkert hvernig málið endar. Auðvitað er vonast til að útgerðarmenn hér á svæðinu kaupi sem mest af aflaheimildunum en ef það gengur ekki eftir þarf að skoða hvort möguleiki sé á úthlutun byggðakvóta, eins og gert var á Þingeyri. Þar fékkst sérstakur byggðakvóti í gegnum Byggðastofnun og var honum úthlutað til 5 ára, gegn því að útgerð tvöfaldaði kvótann með eigin framlagi og allt væri unnið á staðnum.“ Halldór segir það ljóst að til að takast á við þetta mál þurfi sem allra flestir að stilla saman sína strengi og vinna að lausn á vandanum.