Fyrrverandi einbýlishús Hannesar Hafsteins ráðherra á Grundarstíg 10 er til sölu, um 90 árum eftir að skáldið settist þar að 1915 og bjó til dauðadags. Húsið er eitt elsta steinsteypta hús landsins með járnbentum, steyptum gólfplötum. Ýmsir leigjendur í húsinu urðu þjóðþekktir, í þeirra hópi Valtýr Stefánsson, útgefandi og ritstjóri Morgunblaðsins, í um fjóra áratugi, á árunum 1924 til 1963.
Hannes Hafstein, fyrsti ráðherra Íslands og einn svipmesti stjórnmálamaður sinnar tíðar, varð aftur bankastjóri við Íslandsbanka 1914 og gegndi því starfi til 1917, er hann varð að láta af því vegna vanheilsu, eftir að hafa gegnt því 1909 til 1912, í kjölfar þess að hann var ráðherra á árunum 1904 til 1909.
Skáldjöfurinn og foringi Heimastjórnarflokksins 1901 til 1912 varði því ævikvöldinu á Grundarstíg, en þangað flutti hann með fjölskylduna í október 1915. Sjö af tíu börnum hans bjuggu í húsinu, auk móður, tengdamóður og ráðskonu. Kona hans, Ragnheiður Stefánsdóttir Hafstein, lést í júlí 1913 og varð manni sínum mikill harmdauði.
Festi stjörnur fyrir börnin
Þegar Hannes lést 13. desember 1922 keypti Magnús Pétursson bæjarlæknir og síðar héraðslæknir Reykjavíkur húsið. Það var síðan selt Helga Guðbrandssyni sjómanni frá Akranesi 1928 og hefur verið í eigu einstaklinga úr fjölskyldu hans í rétt tæpa átta áratugi. Þegar Helgi og fjölskylda fluttu í húsið mátti enn greina stjörnur sem Hannes hafði fest í blátt svefnherbergisloft í risinu börnum sínum til skemmtunar.