Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, væntanlegur utanríkisráðherra, sagði í kvöld að Samfylkingin myndi halda Evrópumálum á lofti og umræðum um þau gangandi. Hún sagði ennfremur að einhverjir innan flokksins hefðu orðið fyrir vonbrigðum með að ekki tækist að mynda vinstri stjórn, en flokksfólk líti björtum augum á framhaldið og samstarfið.
Aðspurð um ástæður þess að varaformaður flokksins, Ágúst Ólafur Ágústsson, hafi ekki tekið við ráðherradómi sagði Ingibjörg að það kæmi í hans hlut að stýra innra starfi flokksins, og hún treysti honum mjög vel fyrir því annasama starfi.
Ingibjörg sagði að ekki væri búið að ákveða hver taki við þingflokksformennsku.
Hún sagði einnig við fréttamenn, að hún hefði ekki endilega viljað taka við utanríkismálunum en hún spilaði úr þeim spilum sem hún fengi á hendi og hefði mikinn áhuga á alþjóðamálum. Hún sagðist þó óttast ferðalögin, sem þessu embætti fylgdu.