Veggjakrot er í flestum tilfellum hvimleið skemmdarverkastarfsemi sem stunduð er af ungum drengjum í leit að spennu. Lögreglan telur að þetta gangi í bylgjum og að þetta sé í tísku núna. Síðasta bylgja gekk yfir um miðjan síðasta áratug.
Veggjakrotararnir stunda sína iðju á kvöldin og jafnvel mjög seint á nóttunni og halda flestir úti vefsíðum þar sem þeir sýna myndir af verkum sínum og ræða tæknileg og listræn atriði tengd þessu athæfi.
Ein lausn á þessu vandamáli sem borið hefur á góma er að koma upp sérstökum svæðum þar sem leyfilegt er að „graffa" en hún virðist falla um sjálfa sig þar sem ein helsta ástæða þess að „graffa" er spennan við það að stunda eitthvað ólöglegt sem veldur fórnarlambinu ekki líkamlegan skaða.
Graffarinn sem Fréttavefurinn ræddi við sagði að það væri lítið mál að útvega sér úðabrúsa og málningu til verksins og að hægt væri að kaupa sérhannaða graffarabrúsa í svokölluðum hipp-hopp verslunum í Reykjavík.
Lögreglan benti á að ekki væri hægt að banna sölu á slíkum úðabrúsum þar sem ekki sé sakhæft að eiga málningarbrúsa fyrr en hann er notaður á brotlegan hátt.
Viðmælandi Fréttavefjarins sagði reyndar að eftirlitsmyndavélar hefðu raunverulegan fælingarmátt en slíkur búnaður er dýr og ljóst er að auðvelt er að dyljast með góðri hettuúlpu og derhúfu.
Eina ráðið að sögn lögreglunnar er að standa krotara að verki en það dugar skammt ef krotarinn er undir lögaldri.