Áformað er að kalla Alþingi saman í næstu viku, að sögn Geirs H. Haarde, forsætisráðherra. Ríkisstjórnin áformar að leggja þar fram þrjú mál sem fjalla um málefni aldraðra, aðgerðaáætlun vegna barna og breytingar á lögum um stjórnarráð Íslands.
Fram kom hjá Geir, að gera þurfi lagabreytingar vegna breyttrar skipunar ráðuneyta. Breyta þarf lögum um heilbrigðis- og tryggingaráðuneyti og lögum um sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytin. Þá þarf að gera mögulegt að flytja starfsfólk milli ráðuneyta án sérstakra ráðstafana. Geir sagði að sumu væri þó hægt að breyta með reglugerðum.
Um aðskilnað heilbrigðis- og tryggingamála sagði Geir, að hugmyndin væri að málefni aldraðra og almannatryggingaþáttur lífeyriskerfisins flytjist yfir í félagsmálaráðuneytið en sjúkratryggingarnar, sem nú eru undir Tryggingastofnun, verði áfram hluti af heilbrigðisráðuneytinu. Þar undir væri hægt að búa til skipulag, sem myndi annast útboð eða kaup á þjónustu af þeim aðilum, sem hana gætu veitt.
Þetta ætti þó eftir að útfæra nánar og einnig það að skipta Tryggingastofnun milli ráðuneyta.