Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segist hafa góðar væntingar til nýs landbúnaðarráðherra og líst alls ekki illa á að málefni landbúnaðarins færist á hendur Sjálfstæðisflokksins. Haraldur vill að bændur verði hafðir með í ráðum hvað varðar endurskoðun verkefna og segir bændur fagna því að ekki verði gengið lengra í innflutningi á landbúnaðarvörum en kveður á um í alþjóðasamþykktum.
Í stjórnarsáttmálanum segir að unnið verði að endurskoðun landbúnaðarkerfisins með það fyrir augum að auka frelsi, bæta stöðu bænda og lækka verð til neytenda. Formaður Bændasamtaka Íslands segist ekki hafa neinar áhyggjur yfir þessari klausu. Hann beri ekki heldur neinn kvíða í brjósti yfir því að málefni landbúnaðarins sameinist sjávarútveginum í einu ráðuneyti og minnir á að það hafi áður gerst að landbúnaðurinn hafi verið í sameinuðu ráðuneyti.
Haraldur sagði í samtali við mbl.is að hann og forystumenn Bændasamtakanna vilji tryggja aðkomu sérfræðinga í landbúnaði við endurskoðun á verkefnum
„Við munum funda fljótlega með nýjum landbúnaðarráðherra og kynna okkar áherslur og vilja sem og fræðast um hans hugmyndir," sagði Haraldur.