Ný ríkisstjórn harmar stríðsreksturinn í Írak

Í kafla um alþjóðamál í málefnaskrá nýrrar ríkisstjórnar er sagt að ný ríkisstjórn harmi stríðsreksturinn í Írak og vilji leggja sín lóð á vogarskálar friðar í Írak og í Miðausturlöndum, m.a. með þátttöku í mannúðar- og uppbyggingarstarfi. Mannréttindi, aukin þróunarsamvinna og áhersla á friðsamlega úrlausn deilumála verða nýir hornsteinar í íslenskri utanríkisstefnu.

Eitt af stefnumálum Samfylkingarinnar í utanríkismálum á síðasta kjörtímabili var að taka Ísland af svokölluðum lista hinna vígfúsu þjóða og draga formlega til baka pólitískan stuðning Íslands við ólöglega innrás í Írak.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði á blaðamannafundi þar sem stjórnarsáttmálinn var kynntur, að það væri skýr yfirlýsing ríkisstjórnarinnar að hún harmaði þennan stríðsrekstrur. Væntanlega yrði plaggið þýtt yfir á önnur tungumál þannig að það færi ekki á milli mála hver afstaða íslenskra stjórnvalda væri.

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokks, sagði að flokkarnir létu ekki eitthvað sem gerðist fyrir fjórum árum hafa áhrif á samstarf sitt nú. „Við þekkjum forsöguna og afstöðu flokkanna á sínum tíma til þessa máls, en auðvitað hörmum við það ástand sem þarna er nú," sagði Geir.

Í stjórnarsáttmálanum segir einnig, að ríkisstjórnin fylgi markaðri stefnu í öryggis- og varnarmálum og komi á fót samráðsvettvangi stjórnmálaflokkanna um öryggismál. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að allar meiriháttar ákvarðanir um utanríkismál verði teknar í samráði við utanríkismálanefnd Alþingis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka