Össur: Er eins og gamall öróttur fressköttur

Össur ásamt Kristjáni L. Möller en þeir verða báðir ráðherrar.
Össur ásamt Kristjáni L. Möller en þeir verða báðir ráðherrar. mbl.is/Golli

Össur Skarphéðinsson, væntanlegur iðnaðarráðherra, fjallar á bloggvef sínum í dag um aðra stjórnmálamenn sem blogga reglulega og segir að þeir séu samanlagt giska góður barómeter og meðaltal geðsveiflna í hinum pólitíska geira samfélagsins. Sjálfur segist hann vera orðinn eins og gamall fressköttur sem sé búinn að slást við alla kettina í hverfinu, orðinn öróttur á skinni en blíðlyndur í sálinni og með meira jafnaðargeð en hann hélt að hann myndi nokkru sinni öðlast.

„Mér þykir ennþá jafnvænt um Ögmund (Jónasson) og mun brosa blíðlega og af þolinmæði þegar hann fer að rífast við mig í næstu viku. Ég veit að vísu ekki um hvað - en þegar við vorum saman í stjórnarandstöðu vorum við aldrei í vandræðum með að finna tilefni!

Hann er einsog Marlon Brando sem í kvikmyndinni frægu var spurður hverju hann væri að berjast gegn, og svaraði einfaldlega: What have you got? Þannig á alvörustjórnarandstaða að vera, og ég vona Ögmundur láti ekki deigan síga þó foringi hans hafi klúðrað vinstri stjórninni - heldur haldi áfram að berja á íhaldinu - og mér.

Þannig er lífið - og þannig á það að vera. Harla gott," segir Össur.

Bloggsíða Össurar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert