750 milljónum varið í verkefni tengd hvalveiðum

mbl.is/Ómar

Þorsteinn Siglaugsson, hagfræðingur, áætlar að íslensk stjórnvöld hafi á tímabilinu 1990 til 2006 varið 750 milljónum króna í verkefni tengd hvalveiðum og kynningu á málstað Íslendinga í hvalamálinu. Segir Þorsteinn, að þetta sé mikill kostnaður í ljósi þess hve tekjur af sölu hvalkjöts á Íslandi séu litlar.

Þetta kemur fram í skýrslu, sem Þorsteinn hefur gert fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands og International Fund for Animal Welfare. Segir Þorsteinn, að árið 1985 hafi veri flutt út hvalkjöt fyrir um 340 milljónir króna, sem svari til um 1,4 milljarða króna á núvirði. Það svaraði til 0,6% af útflutningi Íslands á þessu ári og hafði þetta hlutfall farið stöðugt minnkandi frá árinu 1951 þegar það var 1,6%.

Þorsteinn ræddi m.a. við forustumenn í íslensku viðskiptalífi og segir að meginniðurstaðan úr þeim viðtölum sé að áhætta, sem tekin sé með hvalveiðum, sé of mikil í ljósi þeirra hagsmuna sem í húfi eru, einkum með atvinnuhvalveiðum.

Þá segir Þorsteinn, að vísbendingar séu um að almenningsálitið sé að breytast. Þannig hafi skoðanakannanir bent til þess að 60% þjóðarinnar styddu þá ákvörðun sjávarútvegsráðherra í nóvember á síðasta ári, að gefa út hvalveiðikvóta, en í febrúar 2007 hafi þetta hlutfall verið 40%.

Skýrsla Þorsteins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert