Dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot

Hæstiréttur hefur dæmt karlmann á fertugsaldri í 15 mánaða fangelsi fyrir að þröngva ungri stúlku stúlku með ofbeldi til annarra kynferðismaka en samræðis. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða stúlkunni 700 þúsund krónur í miskabætur. Héraðsdómur Suðurlands hafði áður dæmt manninn í 18 mánaða fangelsi.

Maðurinn neitaði sök en Hæstiréttur vísar til þess, að fjölskipaður héraðsdómur hafi metið framburð stúlkunnar, sem fékk stoð í framburði annarra vitna, trúverðugan. Einnig hafði rétturinn hliðsjón af ástandi stúlkunnar eftir atvikið og niðurstöðu DNA-rannsóknar.

Stúlkan var 13 ára þegar þetta gerðist í júní á síðasta ári. Í dómi héraðsdóms er m.a. vísað til bótakröfu stúlkunnar þar sem segir að hún hafi í kjölfar þessa þjáðst af andlegri vanlíðan, kvíða og mikilli hræðslutilfinningu. Þá hafi hún ekki treyst sér til að mæta í skóla eftir atvikið og hafi skólasókn hennar því að mestu fallið niður af þeim sökum. Þá sé hún enn barn að aldri og á viðkvæmu þroskaskeiði í lífi sínu og því væru afleiðingar verknaðarins víðtækari en ella.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert