Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar settist á ríkisráðsfund á Bessastöðum um klukkan 14 þar sem hún tók formlega við völdum. Fundurinn tók um klukkutíma en að því loknu héldu nýju ráðherrarnir á skrifstofur sínar og til að taka við lyklavöldum úr höndum fyrirrennara sinna.
Það var létt yfir nýjum ráðherrum þegar þeir komu til Bessastaða í dag. Jóhanna Sigurðardóttir, sem tekur við félagsmálaráðuneytinu eftir 13 ára hlé, sagði við fréttamenn, að þetta væri skemmtilegur dagur.
Þetta er annað ráðuneyti Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, en einnig sitja í ríkisstjórninni Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, Einar K. Guðfinnsson, sjávar- og landbúnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra og Kristján L. Möller, samgönguráðherra.