Ríkissaksóknari sendir kærur á hendur forstöðumanni Byrgisins aftur til sýslumanns

Húsnæði Byrgisins.
Húsnæði Byrgisins. mbl.is/Golli

Með bréfi í dag er Byrgismálið svokallaða sent aftur frá ríkissaksóknaraembættinu til Sýslumanns á Selfossi til frekari rannsóknar. Telur saksóknari að kanna þurfi betur ýmis atriði áður en hægt sé að taka ákvörðun um hvort kærur verða felldar niður á hendur Guðmundi Jónssyni, fyrrverandi forstöðumanni Byrgisins, eða hvort ákært verður. Byrgismálið er flókið enda eru 8 kærendur og því er hver kæra rannsökuð sem einstakt mál.

Að sögn Sigríðar Friðjónsdóttur, saksóknara hjá ríkissaksóknaraembættinu, er búið að fara í gegnum öll rannsóknargögn sem sýslumannsembættið á Selfossi sendi ríkissaksóknara í apríl síðastliðnum. Í dag sé málið sent aftur til sýslumanns til frekari rannsóknar.

Ekki er gefið upp hvaða atriði það eru sem send eru til nánari rannsóknar en Sigríður segir, í samtali við mbl.is, það ekki óalgengt að mál séu send frá embættinu til frekari rannsóknar. Það sé gert til að taka ákvörðun um afgreiðslu mála, það er hvort mál falli niður eða hvort ákært verði í þeim.

Hún bendir á að um átta kærendur sé að ræða og hver kæra sé rannsökuð sem einstakt mál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert