Iðulega kemur mikið rusl undan snjónum á vorin og vekur athygli hversu lítið virðist hafa verið hirt af ruslinu, nú þegar júní nálgast.
Guðbjartur Sigfússon, yfirverkfræðingur gatnadeildar Reykjavíkurborgar, sem sér um ruslatínslu allt árið í samvinnu við verktaka og ýmsa aðila, segir sóðaskap í borginni hafa farið vaxandi síðustu ár og ekki loku fyrir það skotið að góðærið og neyslusamfélagið kunni að eiga sinn þátt í slæmri umgengni og hirðuleysi.
Hann segir Orkuveitu Reykjavíkur fara með hreinsun Öskjuhlíðar, íþrótta og tómstundaráð Reykjavíkur sjái um tínslu í Nauthólsvíkinni og garðyrkjudeild Reykjavíkur í trjábeðum borgarinnar. Þá sinni tveir verktakar, Íslenska gámafélagið og Hreinsitækni, gatnasópun og ruslatínslu á götum höfuðborgarinnar.
Guðbjartur treystir sér ekki til að áætla kostnað við að hirða rusl af götunum en segir ljóst að fyrirtæki og einstaklingar verði að taka þátt í að halda borginni hreinni. Til umræðu sé með hvaða hætti megi stuðla að aukinni hreinsun í borginni en takmörk séu fyrir því hvað borgin geti lagt mikið fé í hreinsunina.
Myndasyrpa af rusli í Reykjavík