Vaxandi sóðaskapur í borginni

DVD-diskur og leifar af skyndibitamat í Skeifunni
DVD-diskur og leifar af skyndibitamat í Skeifunni mbl.is/Baldur Arnarson
Eftir Baldur Arnarson baldura@mbl.is
Vel með farinn svefnsófi, úr sér gengið bílaútvarp og brak úr tölvukassa var á meðal þess sem varð á vegi blaðamanns í Öskjuhlíð um eftirmiðdaginn í gær. Fjaran í Nauthólsvík var full af spýtnabraki og mulið, hvítt frauðplast innan um fuglalífið. Ástandið var litlu betra í Skeifunni, þar sem umbúðir af skyndibitamat, notaður DVD-diskur og sígarettustubbar prýddu trjábeð og gangstéttarkanta verslunarhverfisins.

Iðulega kemur mikið rusl undan snjónum á vorin og vekur athygli hversu lítið virðist hafa verið hirt af ruslinu, nú þegar júní nálgast.

Guðbjartur Sigfússon, yfirverkfræðingur gatnadeildar Reykjavíkurborgar, sem sér um ruslatínslu allt árið í samvinnu við verktaka og ýmsa aðila, segir sóðaskap í borginni hafa farið vaxandi síðustu ár og ekki loku fyrir það skotið að góðærið og neyslusamfélagið kunni að eiga sinn þátt í slæmri umgengni og hirðuleysi.

Hann segir Orkuveitu Reykjavíkur fara með hreinsun Öskjuhlíðar, íþrótta og tómstundaráð Reykjavíkur sjái um tínslu í Nauthólsvíkinni og garðyrkjudeild Reykjavíkur í trjábeðum borgarinnar. Þá sinni tveir verktakar, Íslenska gámafélagið og Hreinsitækni, gatnasópun og ruslatínslu á götum höfuðborgarinnar.

Veðrið hamlar tínslu á vetrum

Unglingar í vinnuskóla Reykjavíkur leggi sitt af mörkum í sumarstörfum og starfsmenn gatnadeildar tíni rusl allt árið, þótt veður leyfi það ekki alla daga á vetrum.

Guðbjartur treystir sér ekki til að áætla kostnað við að hirða rusl af götunum en segir ljóst að fyrirtæki og einstaklingar verði að taka þátt í að halda borginni hreinni. Til umræðu sé með hvaða hætti megi stuðla að aukinni hreinsun í borginni en takmörk séu fyrir því hvað borgin geti lagt mikið fé í hreinsunina.

Myndasyrpa af rusli í Reykjavík

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert