Heimsóknum á fréttavef Morgunblaðsins, mbl.is, hefur fjölgað að undanförnu samkvæmt nýjum niðurstöðum samfelldrar dagblaða- og netmiðlamælingar Capacent Gallup fyrir mars- og aprílmánuði.
Í könnuninni kemur fram að 49,6% Íslendinga á aldrinum 12-80 ára heimsóttu mbl.is daglega en 21,7% heimsóttu netmiðilinn visir.is. Meðalfjöldi heimsókna hvers notanda á dag var 3,08 á mbl.is en 2,01 á visir.is.
Lestur vefmiðla er mestur meðal þeirra sem eru í aldurshópunum 20-29 ára og 30-39 ára en minnstur er lesturinn í yngsta og elsta aldurshópnum.
Hvað lestur prentmiðla varðar hefur hann lítið breyst milli tímabila. Á fyrstu tveimur mánuðum ársins var lestur Morgunblaðsins 43,6% en 43% í mars og apríl. Lestur Fréttablaðsins hefur aukist um 0,1 prósentustig milli tímabila og lestur Blaðsins hefur dregist saman um 0,1 prósentustig.