Fær dæmdar miskabætur vegna flutnings milli deilda á sjúkrahúsi

Landspítalinn-háskólasjúkrahús
Landspítalinn-háskólasjúkrahús mbl.is/ÞÖK

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt konu, sem starfaði sem hjúkrunarfræðingur á geðsviði Landspítala-háskólasjúkrahúss, hálfa milljón króna í miskabætur vegna þess að hún var flutt milli deilda gegn vilja sínum. Það gerðist í kjölfar þess að karlkyns samstarfsmaður konunnar sakaði hana um að hafa beitt sig kynferðislegri áreitni. Dómurinn vísaði hins vegar frá kröfu konunnar um að ákvörðun um flutninginn yrði ógilt.

Upphaf málsins er í dómi héraðsdóms rakið til samkvæmis sem haldið var á föstudagskvöldi sl. haust. Eftir heimboðið fór konan heim til sín og með henni var í för karlmaður, sem einnig starfaði sem hjúkrunarfræðingur á sömu deild sjúkrahússins. Eftir helgina hafði karlmaðurinn samband við hjúkrunardeildarstjóra og sagðist hafa orðið fyrir grófri kynferðislegri áreitni af hálfu konunnar umrætt kvöld og treysti sér ekki til að vinna áfram með henni.

Tveimur dögum síðar talaði deildarstjórinn við konuna og í því samtali lýsti hjúkrunardeildarstjórinn þeirri skoðun, að ekki væri heppilegt að konan og karlmaðurinn ynnu saman. Lausnin á því kynni að vera að konan flyttist yfir á aðra deild. Síðar var konan flutt yfir á aðra deild á geðsviði.

Lýsingum konunnar og karlmannsins á atburðunum voru ólíkar og konan vísaði því á bug að hún hefði áreitt manninn kynferðislega.

Í niðurstöðu dómsins segir, að sjúkrahúsið haldi því fram, að tilfærsla konunnar hafi ekki verið byggð á því að ásakanir starfsfélaga hennar væru á rökum reistar, heldur því að ágreiningur þeirra myndi raska starfsemi deildarinnar sem þau unnu á og við því hafi þurft að bregðast.

Dómurinn segir, að tilfærsla starfsmanns við aðstæður sem þessar geti verið réttmæt enda séu málefnalegar ástæður fyrir því að hann sé færður til en ekki gripið til annarra úrræða, s.s að færa hinn starfsmanninn á aðra deild. Í þessu tilfelli hafi ástæður, sem sjúkrahúsið færði fram við konuna, verið ómálefnalegar.

Vísað er til þess, að karlmaðurinn hafi verið reiðubúinn að flytjast til í starfi en konan var því mótfallin að hún færðist til. Ekki verði séð af gögnum málsins að leitast hafi verið við að koma til móts við hana um það hvert hún yrði færð eða að henni hafi í raun verið gefinn kostur á að færast á aðra deild. Kemst dómurinn að þeirri niðurstöðu, að tilfærsla konunnar hafi verið meira íþyngjandi fyrir hana en efni stóðu til.

Þá segir í dómnum, að tilfærsla konunnar milli deilda hafi falið í sér brot gegn æru og persónu hennar. Hafi hún verið til þess fallin að gefa alvarlegum ásökunum starfsfélaga hennar byr undir báða vængi og valda konunnar miklum álitshnekki og andlegri vanlíðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert