Styrking krónu ekki skilað sér út í verðlagið

Eftir Davíð Loga Sigurðsson david@mbl.is
Það kemur Andrési Magnússyni, framkvæmdastjóra Félags íslenskra stórkaupmanna, nokkuð á óvart að veruleg styrking íslensku krónunnar skuli ekki hafa skilað sér út í verðlagið. Bent var á það í Morgunblaðinu í gær að bensínverð hefur hækkað þrátt fyrir sífellt hærra gengi krónu en hið sama á einnig við um matvörumarkaðinn. Mun verð á mat- og drykkjarvörum hafa hækkað talsvert í apríl, eða um 1,3%.

Bandaríkjadalurinn kostaði í janúar um 70 krónur, en nú er gengið um 62 krónur. Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, rifjar upp að við þær aðstæður sem voru í upphafi árs hafi birgjar séð sig neydda til að hækka verð á matvöru, m.a. með þeim rökum að krónan hefði veikst. Segir Jóhannes að neytendur eigi heimtingu á því að fyrirtæki grípi nú til sömu ráðstafana, en í hina áttina; þ.e. lækki verð tafarlaust.

„Það liggur fyrir að krónan hefur verið að styrkjast. En það er því miður svo að þeir aðilar sem eru fljótir að hækka þegar krónan veikist eru sjaldnast jafn fljótir þegar krónan styrkist," segir Jóhannes.

Forsvarsmenn stóru smásölukeðjanna, Kaupáss og Haga – en Kaupás rekur Nóatúnsverslanirnar, 11-11 og Krónu-búðirnar og Hagar reka Bónus, Hagkaup og 10-11 – benda á hinn bóginn á að aðeins um 30% matvörunnar á markaðnum séu innflutt. Stærsti hluti matvörunnar er landbúnaðarframleiðsla, eða um 45%, og 25% eru síðan innlend iðnaðarframleiðsla. Þeir segja að aðeins lítill hluti matvörunnar sé því gengistengdur með beinum hætti. Hækkun á matvörumarkaði skýrist af verðhækkun á innlendum vörum, ekki síst landbúnaðarafurðum.

„Innfluttar vörur, sem eru háðar gengi, eru ekki nema hluti af okkar heildarvöruframboði. Innfluttar matvörur hafa verið að lækka hjá okkur," segir Eysteinn Helgason hjá Kaupási.

Finnur Árnason, forstjóri Haga, tekur í sama streng og segir ekki svigrúm til verðlækkana hjá þeim. Afkomutölur fyrirtækisins staðfesti þetta. Finnur segir að verðlag hafi lækkað töluvert 1. mars þegar vörugjald var fellt niður og virðisaukaskattur á matvöru lækkaður. Hins vegar séu blikur á lofti, því að sama dag og tekin var ákvörðun um að lækka virðisaukaskattinn hafi verið gerð tollabreyting á grænmeti. 1. júlí muni það því annað hvort gerast að innflutningi á grænmeti frá löndum utan Evrópusambandsins verði hætt, eða þá að veruleg hækkun verði á þeim vörum.

Finnur gagnrýnir fyrrverandi landbúnaðarráðherra, Guðna Ágústsson, og segir að yfirlýsingar hans um að tollabreytingar, m.a. á kjötvörum, myndu leiða til lækkunar fyrir neytendur hafi ekki átt við rök að styðjast. Það hafi sýnt sig þegar Guðni hafnaði beiðni frá Högum um innflutning á 100 kg af nýsjálensku lambakjöti; kjöti sem Hagar borguðu þó fullan toll af. Hagsmunir neytenda hafi ekki ráðið þar ferðinni hjá ráðherranum.

Aðspurður segist Finnur vera fullur bjartsýni um að nýr landbúnaðarráðherra, Einar K. Guðfinnsson, beiti sér þannig að íslenskir neytendur finni fyrir því. Hann segir að Hagar muni gera aðra tilraun til að fá heimild til innflutnings á nýsjálenska lambakjötinu, en markmið fyrirtækisins hafi verið að bjóða neytendum upp á lambakjöt á hagstæðu verði.

Verð ætti að lækka

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri FÍS, segir að matvöruheildsalar hafi misjafnar aðferðir til að bregðast við gengisbreytingum. Sumir bregðist kannski við tvisvar á ári, skoði þá þróun á gengi og erlendum hækkunum á t.d. hálfs árs tímabili. Aðrir bregðist hraðar við breytingum á gengi og öðrum áhrifaþáttum. "Almennt séð gengur smásalan, eða viðskiptavinir þeirra, eftir því að það verði verðbreytingar í takt við gengisbreytingar, sérstaklega ef gengið er að styrkjast. Miðað við það hvernig þessi samskipti eru milli sölustiganna má búast við því, undir venjulegum kringumstæðum a.m.k., að við þessar aðstæður sem nú eru lækki verð," segir Andrés.

Hann segist þó þurfa að kanna betur hvar skýringanna sé að leita. "Það kom mér aðeins á óvart að þetta hefði ekki skilað sér út í verðlagið. Ég á eftir að leita skýringa á því."

Í hnotskurn
» Verð á mat- og drykkjarvöru hækkaði milli mánaða, apríl og maí, um 1,3%.
» Íslenska krónan hefur styrkst verulega, í janúar kostaði bandaríkjadalur um 70 krónur en nú er gengið hins vegar um 62 krónur.
» Aðeins um 30% matvörunnar eru hins vegar innflutt, 45% eru innlendar landbúnaðarvörur og 25% innlend iðnaðarframleiðsla.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert