Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, hvetur presta landsins til að gera messu hvítasunnunnar að þjóðahátíð kirkjunnar og bjóða sérstaklega útlendingum og aðkomufólki að koma og lesa texta þessarar hátíðar á eigin tungumálum. Þann dag er lesið um undur sem gerðust í Jerúsalem og greint er frá í öðrum kafla Postulasögunnar, segir í tilkynningu frá Þjóðkirkjunni.
Í bréf til presta segir biskup:
Kirkjan er send til að gera allar þjóðir að lærisveinum, boða öllum mönnum og þjóðum stórmerki Guðs. Helgar og hátíðir og heilög iðkun kirkjunnar er liður í því. Hvítasunnan er afmælishátíð kirkjunnar, og má aldrei vera upprifjun sögu sem einu sinni varð, undurs og tákna sem eitt sinn urðu endur fyrir löngu heldur hvatning og uppörvun til dáða. Hlutverk kirkjunnar er ekki að orna sér við minningar. Hún er send í anda Krists til að boða stórmerki hans. Íslenskur samtímaveruleiki minnir á það sem var í Jerúsalem forðum þar sem dvaldi fólk „frá öllum löndum undir himninum“. Þar á meðal er guðrækið fólk, kristnar manneskjur og fólk sem leggur sitt að mörkum í kristnu samfélagi, t.d. sem söngfólk og organistar.
Ég hef hvatt til þess að við gerum messu hvítasunnunnar að þjóðahátíð kirkjunnar.
Að þá verði sérstaklega boðið til kirkju útlendingum og aðkomufólki og boðið að lesa textana á sínum eigin tungumálum. Það getur verið hrífandi og öflug hvítasunnuprédikun og áminning til okkar að andinn blæs þar sem hann vill, hann rýfur múra og markalínur þjóðernis, menningarheima, tungumáls já, og trúarbragða, og skapar samskilning og einingu. Við erum öll kölluð til að vera verkfæri andans til að miðla þeim skilningi og einingu og stuðla þannig að friði í heimi.