Tilboð bárust í allar lóðaeiningar sem í boði voru í nýrri íbúðarbyggð í Urriðaholti í Garðabæ, í nágrenni verslunar IKEA, sem opnuð var undir lok síðasta árs. Tilboð voru opnuð í gær en alls stóðu 47 lóðaeiningar fyrir 100 íbúðir til boða og var tilboðum tekið í rúmlega helming lóðanna samkvæmt fréttatilkynningu frá eiganda svæðisins, Urriðaholti ehf.
Í fréttatilkynningunni er haft eftir Jóni Pálma Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Urriðaholts, að þetta sé skýr viðurkenning á verðmæti landsins og þeim skipulagsgæðum sem lagt var upp með.
Sex óvenjustórar einbýlishúsalóðir voru boðnar út og var viðmiðunarverð fasteignasala fyrir þessar lóðir á bilinu 50–60 milljónir króna. Athygli vekur að tilboð bárust í allar þessar lóðir en aðeins einu þeirra var tekið. Viðmiðunarverð annarra lóða sem óskað var tilboða í var á bilinu 6–29 milljónir króna.