Íslendingar á tímamótum í öryggismálum

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, nýr utanríkisráðherra.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, nýr utanríkisráðherra. mbl.is/RAX

Ísland stendur á tímamótum í öryggismálum, að mati Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra. „Brotthvarf Bandaríkjahers voru söguleg tímamót, útrásin og viðskiptatengsl Íslands um heim allan eru nýr veruleiki og sama á við um umhverfisvána, sem er alþjóðamál. Nú skiptir öllu að skilgreina stöðu og rödd Íslands rétt og skynsamlega og takast á við það verkefni af alvöru og vandvirkni,“ segir hún m.a. í viðtali sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Sumir bjuggust við að Ingibjörg Sólrún veldi annað ráðuneyti, þar sem mikil ferðalög fylgja starfi utanríkisráðherra og því gæti reynst erfitt að hafa stjórn á þingflokknum. En hún gefur lítið fyrir það. „Ég hef engar sérstakar áhyggjur af þingflokknum. Ferðalög eru hluti af störfum allra ráðherra í nútímanum og ég held að óttinn við þetta sé arfur gamals tíma.“

Öryggismálin heyra undir utanríkisráðuneytið, þó að forsætisráðherra hafi farið með fyrirsvarið í varnarviðræðunum við Bandaríkin. „Þeim viðræðum er nú lokið,“ segir Ingibjörg Sólrún. „Framganga Bandaríkjanna gagnvart Íslendingum var óheppileg og af því verðum við að draga lærdóm. Allir vita að ég hef ekki verið aðdáandi utanríkisstefnu Bush-stjórnarinnar en hún á sér heldur ekki marga aðdáendur í Evrópu yfirleitt. En Bandaríkjastjórnir koma og fara og sem utanríkisráðherra mun ég auðvitað alltaf kappkosta að tryggja hagsmuni Íslands með góðu sambandi við þetta mikilvæga viðskiptaland og granna í vestri.“

Hún segir framboð Íslands í öryggisráðið í farvegi í ráðuneytinu, hún muni taka stöðuna á því og ákveða framhaldið. Og hún hefur engin áform um fjölgun sendiráða, þó að hún útiloki ekki breytingar. „Það er hlutverk stjórnandans að huga að því hvar bæta megi starfsemina og þjónustuna og þá um leið hvað megi leggja af sem þjónar ekki lengur mikilvægum tilgangi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert