Síðastliðin ár hefur ekki náðst samkomulag um veiðarnar og því verið veitt umfram ráðleggingar fiskifræðinga. Samkomulag um skiptinguna er hins vegar í gildi nú og því verða veiðarnar í samræmi við ráðleggingar. Norðmenn hafa mesta hlutdeild, 61%, en hlutdeild Íslands er 14,5%. Kvóti Íslands er um 183.000 tonn á þessu ári en í fyrra varð aflinn 157.000 tonn. Norðmenn hafa lengi viljað auka hlut sinn verulega á kostnað annarra þjóða á grundvelli þess að síldin hrygni við Noreg og haldi sig lengst af innan norskrar lögsögu. Með breyttu göngumynstri síldarinnar er þó ljóst að vígstaða Íslands verður mun betri en áður. Íslendingar hafa í auknum mæli veitt síldina innan eigin lögsögu. Í fyrra veiddust 40.000 tonn í eigin lögsögu, 38.000 tonn í þeirri færeysku og 79.000 tonn í Síldarsmugunni, alþjóðlega hafsvæðinu milli Íslands og Noregs.