Eftir Hjört Gíslason hjgi@mbl.isNorsk-íslenska síldin er að koma á ný. Mikið af henni er nú innan lögsögunnar, mun meira en verið hefur undanfarin ár. Hún gengur nú vestar og vestar og stöðugt aukast líkurnar á því að hún fari að hafa vetursetu fyrir Norðurlandi. Fari svo verður hún í verulegu magni innan íslenzku lögsögunnar í um níu mánuði á ári og gæti hugsanlega tekið upp á því að hrygna hér við land að hluta til eins og gerðist á gömlu góðu síldarárununum. Þá var gangur síldarinnar sá að hún hrygndi við Noreg og leitaði síðan í æti á svæðinu norður og austur af Íslandi. Þá hafði hún oft vetursetu á Rauðatorginu djúpt austur af landinu.
Gömlu síldarárin hreint ævintýri
Gömlu síldarárin voru hreint ævintýri og á sjöunda áratugnum stóð síldin undir nánast allri verðmætasköpun í landinu. Afli Íslendinga fór mest í 691.400 tonn árið 1966, en það ár varð heildaraflinn nærri tvær milljónir tonna. Svo fór að halla undan fæti, stofninn skorti æti og hann var ofveiddur og eltur uppi langt norður í höfum, þar sem endanlega var gengið frá honum, enda voru margar þjóðir um hituna. Það tók 40 ár að byggja hann upp á ný.
Síðastliðin ár hefur ekki náðst samkomulag um veiðarnar og því verið veitt umfram ráðleggingar fiskifræðinga. Samkomulag um skiptinguna er hins vegar í gildi nú og því verða veiðarnar í samræmi við ráðleggingar. Norðmenn hafa mesta hlutdeild, 61%, en hlutdeild Íslands er 14,5%. Kvóti Íslands er um 183.000 tonn á þessu ári en í fyrra varð aflinn 157.000 tonn. Norðmenn hafa lengi viljað auka hlut sinn verulega á kostnað annarra þjóða á grundvelli þess að síldin hrygni við Noreg og haldi sig lengst af innan norskrar lögsögu. Með breyttu göngumynstri síldarinnar er þó ljóst að vígstaða Íslands verður mun betri en áður. Íslendingar hafa í auknum mæli veitt síldina innan eigin lögsögu. Í fyrra veiddust 40.000 tonn í eigin lögsögu, 38.000 tonn í þeirri færeysku og 79.000 tonn í Síldarsmugunni, alþjóðlega hafsvæðinu milli Íslands og Noregs.
Mikilvægi síldarinnar
Síldin skiptir miklu máli. Á síðasta ári var útflutningsverðmæti síldar 9,8 milljarðar og hafði aukizt um rúmlega þriðjung frá fyrra ári. Það eru aðeins þrjár fisktegundir sem skila meiru, þorskur, ýsa og karfi. Síldin er að miklu leyti unnin til manneldis. 2005 var bróðurparturinn af síldinni frystur um borð í fiskiskipum og í landi. Í fyrra voru markaðir fyrir frysta síld ekki eins góðir og árið áður og fór mest af síldinni í mjöl- og lýsisvinnslu. Verð á þeim afurðum var þá í sögulegu hámarki og verðmætasköpun mikil.