Ásakanir um slæma meðferð á Portúgölum við Kárahnjúka kannaðar

António Braga, undirráðherra í utanríkisráðuneyti Portúgals, segir að þarlend stjórnvöld hafi engar formlegar upplýsingar um meinta þrælsmeðferð á portúgölskum verkamönnum við Kárahnjúka, sem fjölmiðlar í Portúgal hafa haft eftir þarlendu verkalýðsfélagi. Fram kom í fréttum Útvarpsins að utanríkisráðuneytið hefði samt skipað sendiherra Portúgals í Ósló sem fer með portúgölsk málefni á Íslandi að komast að hinu sanna í málinu í samvinnu við ræðismann Portúgals í Reykjavík.

Útvarpið hafði eftir undirráðherranum, að ef sú eftirgrennslan staðfesti ásakanir um illa meðferð sé Portúgalsstjórn í stakk búin til að grípa til aðgerða og styðja portúgalska borgara við vinnu á svæðinu.

A Lusa, stærsta fréttaveita Portúgals, hafði í gær eftir ónefndum portúgölskum verkamanni sem vinnumiðlun réð til starfa á Íslandi, að vinnan á Kárahnjúkum hefði verið afar slæm reynsla og farið væri með portúgalska starfsmenn nánast sem þræla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert