Jón Þór Sturluson, dósent við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, segir að rannsóknir sýni að gengisbreytingar skili sér tiltölulega seint inn í verð á bílum, enda miðast verð innfluttra bíla við tollgengi en það er ákvarðað einu sinni í mánuði og gildir þá heilan mánuð. Birgir Sigurðsson, fjármálastjóri Heklu, segir að gengisbreytinga hafi þó séð stað hjá þeim nú þegar. "En það er nú þannig með blessaða krónuna að hún er nú ansi fljót að veikjast þegar hún tekur upp á því, en styrkingin er gjarnan hægfara yfir langan tíma."
Birgir segir að ekki sé hægt að stökkva í hvelli á eftir krónunni til eða frá "samanber það að fyrir rúmu ári síðan þegar krónan tók snarlega að veikjast þá kom hækkunin miklu seinna fram í bílverðinu heldur en efni hefðu staðið til, miðað við hvað það reyndist vera langur tími sem hún var veik".
"Þegar krónan féll í fyrra þá fylgdum við þeirri gengislækkun ekki alla leið. Þegar krónan var búin að falla um ein 30% þá vorum við samt ekki búnir að hækka verð nema um 12 eða 13%," sagði Kristján ennfremur.
Egill Jóhannsson, framkvæmdastjóri Brimborgar, segir að reynt sé að líta til lengri tíma við verðlagninguna. Bílar séu ekki eins og matvara, ekki sé hægt að lækka og hækka verð nokkrum sinnum í mánuði. Gengið hafi vissulega verið að styrkjast mjög skarpt nú undanfarið, en enginn viti hvort það muni haldast. "Þannig að við erum ekki búnir að lækka neitt yfir línuna akkúrat núna. Það sem við gerum frekar er að við aukum þá aðeins afslætti innanhúss, veitum mönnum 2% aukaafslátt af söluverðinu í stað þess að breyta öllum verðlistum. Ef við sjáum að þetta ætlar að verða viðvarandi ástand þá finnst mér hins vegar ekkert ólíklegt að við lækkum.
Sama höfum við alltaf gert, við erum algerlega samkvæmir sjálfum okkur, þegar gengið veikist. Þá hækkum við ekki verðið strax heldur höfum þá dregið frekar úr afsláttum og reynum þannig að halda verðlistanum stöðugum."